Leiðbeiningar fyrir kalkmálningu
Leiðbeiningar fyrir kalkmálningu
Það besta við kalkmálninguna er að undirbúningur á yfirborði hlutarins sem á að mála á að vera í lágmarki. Ekki er þörf á að pússa eða grunna yfirborðið, ekki nema lakkið sé farið að flagna, hluturinn er olíuborinn (t.d. Míru húsgögn) eða það er of glansandi (t.d. lakkað með háglans). Eina sem þarf að hafa í huga er að yfirborðið sé ekki óhreint, ryk, klístur, fita eða olía gerir það að verkum að málningin nái ekki taki og flagni með tímanum eða þegar vaxið er borið á. Gott er að nota viðeigandi hreinsiefni á flötinn til að leysa fitu og önnur óhreinindi upp. Til dæmis tusku með vel heitu vatni og sápu á við/tré, mælt hefur verið með gluggahreinsi á olíuborinn eða vaxborinn við og svo alkóhól lausn á gler og postulín.
Mikilvægt er þó að leyfa yfirborðinu að þorna mjög vel áður en það er málað, 1 klst upp í sólarhring. Verður að meta eftir yfirborði og hversu vel það dregur í sig vökva.
Hvaða fleti má nota málninguna á?
Kalkmálninguna má nota á flest öll yfirborð t.d. meðhöndlaðan og ómeðhöndlaðan við, striga, ómeðhöndlaða og meðhöndlaða leirmuni, stál/tin, pappír, steina og gips. Málninguna má nota á postulín og gler og einnig á efni en þolir þó ekki þvott í þvottavél eða uppþvottavél.
Aðferð
Gott er að nota mjúka málningabursta með löngum grófum hárum til að bera málninguna á. Þurrkunartími málningarinnar fer eftir yfirborði og umhverfi. Annað hvort er hægt að mála í nokkrum þunnum umferðum eða 1-2 þykkum umferðum ef maður vill fá meiri áferð. Yfirleitt er málningin snertiþurr á nokkrum mínútum en það er nauðsynlegt að leyfa málningunni að þorna vel á milli umferða, annars gæti hún flagnað eða áferðin orðið óæskileg.
Athugið: Mögulegt er að þurrka hverja umferð með hárþurrku en varast verður að nota þá aðferð einungis á mjög þykku lagi af málningu því það getur valdið sprungum.
Vax
Vaxið er hugsað til að loka yfirborðinu eftir að kalkmálningin er borin á og er borið á 2-24 tímum eftir að hlutur er málaður. Það má meta út frá því hversu vel málningin er þurr. Vaxið verndar og gefur fallega áferð. Athugið að vaxið er ágætlega þykkt en mikilvægt er að bera vaxið þunnt á og vinna það vel inn í yfirborðið. Ef vaxið er borið of þykkt á gæti það valdið ljósum blettum á dökkum lit og þegar það er buffað þá getur það nuddast af. Gott er að nota sama pensilinn, hnökralausan bómullarklút eða microklút til að bera vaxið á. Því ákveðnara sem vaxið er nuddað á því meiri glansáferð fær maður, ef þess er ekki óskað er hægt að nudda aðeins hægar. Passa verður að nota ekki sama flötinn á tuskunni á allan hlutinn. Forðist mikið áreiti á hlutinn fyrstu 7 dagana, það þarf þann tíma til að herðast og þorna almennilega.
Með litaða eða hvíta vaxinu er mælt með einni þunnri áferð af glæru vaxi undir, láta þorna og buffa (nudda með klút), það er auðveldara fyrir að vinna með litaða vaxið þar sem það þarf þá ekki að þekja hlutinn ef maður vill einungis bera það á horn og/eða kanta. Berið litaða vaxið á og þurrkið strax af ef maður vill fá "distressed" eða notað/gamal útlit. Hlutir sem eru mikið notaðir eins og stólar, borð og kommóður er ágætt að endubera vaxið á á 1-1 1/2 árs fresti.